Um lestur

Mikilvægt að börn og foreldrar lesi saman
Eftirfarandi grein er frá 22. maí 1983.

Breskir kennarar sem leita aðferða til þess að bæta lestrarkunnáttu skólabarna hafa komist að þeirri niðurstöðu að vænlegasta lausnin sé sú að hvetja foreldra til þess að eiga reglulegar lestrarstundir með börnum sínum heima fyrir.

34 af 48 grunnskólum í Hackney, sem er eitt af fátækustu hverfunum í London komu sér upp áætlun sem beinist að því að foreldrarnir taki virkan þátt í lestrarkennslu barnanna. Í sumum skólum taka allt að 98% foreldranna þátt í þessu starfi.

Alex Griffiths sálfræðingur, sem sérhæfir sig í menntun skólabarna, einn af skipuleggjendum áætlunarinnar segir að þær reglur sem foreldrum er ætlað að fara eftir séu einfaldar:

– Hrósaðu barninu mikið.
– Gerðu lestrarstundirnar skemmtilegar.
– Hafðu lestrarstundirnar tíu til fimmtán mínútur.

Árangurinn er undraverður. Í fyrsta skólanum sem framfylgdi áætluninni jókst hlutfall þeirra barna sem sköruðu fram úr sínum aldurshópi um 50% á tveimur árum og all mörg börn sprengdu viðmiðunarrammann.

Í einum smábarnaskóla náðu börnin svo háum einkunnum í lestri að þegar þau voru flutt í grunnskólann neitaði skólastjórinn þar að trúa þeim. Börnin voru því prófuð upp á nýtt og skiluðu sama árangri.

Árangur áætlunarinnar hefur verið svo góður að í sumum skólum hefur þurft að auka útgjöld vegna skólabóka um helming til þess að geta svarað eftirspurninni. „Þau komast í gegnum bækurnar með undraverðum hraða“, segir Janet Bradley, smábarnakennari. „Það myndi taka mig langan tíma að komast í gegnum eina bók með hverju barni. En þau fara oft heim og lesa heila bók á einu kvöldi“.

Samkvæmt áætluninni hefur hvert barn sitt spjald og á það rita bæði kennarar og foreldrar athugasemdir sínar. Kennarinn leggur til að barnið skuli lesa svo eða svo margar blaðsíður og foreldrarnir svara með athugasemdum um frammistöðu barnsins og hvort þær bækur sem notaðar eru séu við hæfi.

Foreldrum eru einnig ráðlagðar aðferðir ef illa gengur. Sumir skólanna ráðleggja foreldrunum t.d. að gera ekki mikið úr því. „Leyfðu barninu að reyna að geta sér til um orðið út frá merkingu setningarinnar eða hljóði fyrsta stafsins. Ef það gengur ekki skaltu bara segja barninu hvaða orð þetta sé og halda síðan áfram“.

Griffith segir: „Merkingin er aðalatriðið. Foreldrarnir geta hlustað eftir því hvort setningin er í samhengi eða ekki“.

Tilraunir annars staðar staðfesta gildi þess að foreldrarnir hjálpi til. Foreldrar nemenda skóla nokkurs, sem koma úr mjög fátækum fjölskyldum og búa við afar slæm skilyrði, féllust á að hlusta á lestur barna sinna í tíu til fimmtán mínútur daglega. Að tíu vikum liðnum höfðu börnin tekið framförum sem jafnaldrar þeirra ná að öðrum kosti á sex mánuðum.

Nú vilja skipuleggjendur áætlunarinnar færa út kvíarnar og koma á aðstoð foreldra við stærðfræðikennslu. Einnig eru uppi hugmyndir um aðra og stærri áætlun sem miðar að því að skólabörn eigi reglubundnar lestrarstundir með ellilífeyrisþegum.