Sími 441 4800

Fréttir

Dagur Íslenskrar tungu - 16.11.2017

Dagur Íslenskrar tunguÍ dag 16.nóvember er Dagur Íslenskrar tungu. Af því tilefni hittust nemendur í 4., 6. og 7. bekk í sal skólans við hátíðlega athöfn þar sem Litla- og Stóra upplestrarkeppnirnar voru settar. Undanfarin ár höfum við tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni en í vetur erum við að taka í fyrsta skipti þátt í Litlu upplestrarkeppninni en hún er ætluð fyrir nemendur í 4.bekk, en markmið hennar er að nemendur keppist við að verða betri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Sigurvegarar okkar í Stóru upplestrarkeppninni í fyrra þau Björgvin Ingi Ólafsson og Saga Guðlaugsdóttir lásu ljóð, Iðunn María Hrafnkelsdóttir spilaði á hljóðfæri og stúlkur úr 7. bekk enduðu svo athöfnina á dansatriði.

Læsisstefna Smáraskóla - 8.11.2017

Læsisstefna Smáraskóla hefur verið í þróun síðustu misseri og er unnin eftir þeim lestrarkennsluaðferðum, skimunum og prófum sem notast er við hér í skólanum. Einnig er unnið eftir þeim nýju viðmiðum í lestri sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Leitast var við að setja stefnuna upp á því formi að hún nýtist sem vinnuskjal sem hægt er að efla og þróa. Markmið voru sett fram hvað varðar hraðlestrarfærni nemenda og er þeirri færni fylgt eftir með reglulegri skimun, söfnun og úrvinnslu gagna.

Lestur er undirstaða alls bóknáms og gera þarf íslenskukennslunni „ástkæra, ylhýra málinu“ eins góð skil og kostur er. 

Tengil á stefnuna má finna hér.   

Vináttudagurinn í Smáraskóla - 8.11.2017

Vináttudagurinn í Smárahverfi var haldinn hátíðlegur í Fífunni í dag.  Dagskráin hófst kl. 10 er nemendur í 9. og 10. bekk skólans gengu í hús með smáa vini sína úr leikskólunum Læk og Arnarsmára.  Hver unglingur bar ábyrgð á tveimur leikskólabörnum, gengu með þeim hönd í hönd frá leikskólunum í Fífuna og svo aftur til baka.  Stóðu unglingarnir okkar sig afar vel, voru ábyrgir og traustir vinir. 
Á dagskránni voru vinasöngvar og dansar þar sem stórir og smáir dönsuðu og sungu saman.  Myndaður var gríðarstór vinahringur og framkvæmd var bylgja sem endaði svo með hópknúsi.  Að ógleymdri heimsókn Blæs sem heiðraði okkur með nærveru sinni og söng og dansaði með nemendum.  Blær er verkefni sem Barnaheill á Íslandi hefur látið þýða og staðfæra.  Verkefnið snýst um að efla vináttu, vinarþel og vinna gegn einelti.  Efnið verður notaður í kennslu með nemendum í 1. - 3. bekk skólans en leikskólarnir í hverfinu hafa unnið með verkefnið í sínu starfi síðustu ár.  Kristín Laufey aðstoðarleikskólastjóri á Læk ávarpaði mannfjöldann og afhenti okkur fyrsta Blæ bangsann.  Og svo birtist Blær skyndilega í fullri stærð og vakti það mikla lukku á meðal allra viðstaddra.  Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðstjóri Menntasviðs tóku virkan þátt í gleðinni í morgun og sýndu m.a. snilldar danstakta.  Fleiri myndir frá deginum má finna á fésbókarsíðu skólans á slóðinni  https://www.facebook.com/Smaraskoli/ 


Dagskrá í menningarhúsum Kópavogs í haustfríi grunnskóla - 25.10.2017

Menningarhúsin í Kópavogi bjóða börn og foreldra sérstaklega velkomin í haustfríi grunnskólans dagana 26. -28. október. Dagskrá húsanna er eftirfarandi:

 

Fimmtudagur 26. október kl. 10-13, Gerðarsafn :

Listsmiðja fyrir alla fjölskylduna í Gerðarsafni þar sem listakrákurnar Iða, Litía og Hringur verða með í för og skoða málverkasýninguna Staðsetningar með þátttakendum. Náttúrufræðistofa verður einnig heimsótt og steinar skoðaðir í smásjá í því skyni að leita tenginga milli myndlistar og vísinda. Listsmiðjan er fyrst og fremst góð samverustund í skapandi umhverfi Gerðarsafns.

 

Fimmtudagur 26. október kl. 11, Bókasafn Kópavogs aðalsafn:

Starwarsbíó í fjölnotasalnum, Episode IV.

 

Fimmtudagur 26. október kl. 13, Bókasafn Kópavogs, aðalsafn:

Vísindasmiðja Háskóla Íslands fyrir forvitna krakka

 

Fimmtudagur 26. október kl. 14, Lindasafn:

Spilastund og notaleg stemning á bókasafninu, Lindasafni.

 

Föstudagur 27. október kl. 10-13, Gerðarsafn:

Listsmiðja fyrir alla fjölskylduna í Gerðarsafni þar sem listakrákurnar Iða, Litía og Hringur verða með í för og skoða málverkasýninguna Staðsetningar með þátttakendum. Náttúrufræðistofa verður einnig heimsótt og steinar skoðaðir í smásjá í því skyni að leita tenginga milli myndlistar og vísinda. Listsmiðjan er fyrst og fremst góð samverustund í skapandi umhverfi Gerðarsafns.

 

Föstudagur 27. október kl. 11, Bókasafn Kópavogs aðalsafn:

Starwarsbíóstuði heldur áfram með Episode V.

 

Föstudagur 27. október kl. 13, aðalsafn:

Episode VI og þar með lýkur Starwarsmaraþoni bókasafnsins.

 

Laugardagur 28. október Fjölskyldustund tileinkuð hrekkjavökunni

á Bókasafni Kópavogs aðalsafni:

Kl. 11: Hrekkjavökusögustund í myrkri. Takið með vasaljósin!

Kl. 12: Dregið úr bangsgetraun í tilefni af Alþjóðlega bangsadeginum.

Kl. 13: Grímusmiðja í umsjón Ingibjargar Huldar sem hefur reynslu af rosalegum grímum. Allt efni á staðnum.

 

Aðgangur á alla viðburði er ókeypis!!